
500 ml Hreppamjólk
100 gr smjör
1 tsk sykur
1 bréf þurrger (eða 1 msk/10 gr)
2 tsk salt
700 gr hveiti
Smávegis olía
Egg til penslunar
Fræblanda ofan á, má sleppa
Bræðið saman Hreppamjólk og smjör í potti eða örbylgju. Bætið sykri og geri saman við og hrærið lítillega. Passa þarf að mjólkurblandan sé ekki of heit en hún á að vera fingurvolg. Látið standa í ca. 5 mín og leyfið gerinu að freyða. Ef gerið freyðir ekki hefur mjólkurblandan líklega verið of heit og þá þarf að byrja uppá nýtt. Bætið salti og hveiti saman við og hnoðið, ég nota krókinn á hrærivélinni. Sé deigið of blautt má bæta við smávegis hveiti. Látið hefast í 40 mín. Mótið í bollur eða bolluhleif, penslið með eggi og stráið fræjum yfir (má sleppa) Bakið við 190 gráður í 18 mín eða þar til þær eru orðnar gullinbrúnar og girnilegar, ég nota blástur. Þar sem að ofnar eru misjafnir gæti baksturstíma skeikað um einhverjar mínútur til eða frá.
Hreppa-vökubúningur:
Bætið appelsínugulum matarlit saman við deigið og látið hefast. Mótið í bollur og bindið snæri 2-3 sinnum utan um hverja bollu, ekki fast þar sem að þær blása út við bakstur. Penslið með eggi og bakið. Klippið snærið af bollunum þegar þær eru fullbakaðar og stingið möndlu eða hnetu í þær miðjar eins og stilk.
.jpeg)
Lúffeng súkkulaðikaka, fullkomin með glasi af mjólk.
400 gr sykur
270 gr hveiti
80 gr kakó
1 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 tsk vanilludropar
3 egg
500 ml Hreppamjólk
175 gr brætt smjör
2 msk sítrónusafi eða safi úr 1 sítrónu (má sleppa)
2 msk sterkt kaffi (má sleppa)
Byrjið á að blanda Hreppamjólkinni og sítrónusafanum saman og látið standa í 5-10 mín. Þetta er gert til að útbúa svokallaða "smjörmjólk" eða "buttermilk" uppá enskuna. Buttermilk í bakstri gefur auka mýkt sem er svo dásamleg en þetta er ekki nauðsynlegt skref og skúffukakan mjög góð án hennar. Blandið öllum þurrefnum saman í skál og hrærið þar til allt er vel samlagað. Bætið síðan saman við öllum hinum hráefnunum. Aftur er ekki nauðsynlegt að bæta kaffi saman við en kaffið dýpkar bragðið af súkkulaðinu og fæstir finna nokkuð kaffibragð. Hrærið öllu saman þar til kekkjalaust og hellið í smurt skúffukökuform. Ég nota frekar stórt form og spreyja það með Pamspreyi og set örk af bökunarpappír í botninn.
Bakið við 170 gráður (ég nota blástur) í 28-30 mín eða þar til prjónn kemur hreinn upp úr kökunni og ómótstæðilegur kökuilmurinn fyllir húsið! Vert er að nefna að ofnar eru misjafnir og því gæti bökunarkartíma skeikað um 5 mín til eða frá.

75 gr smjör, brætt
3 msk Hreppamjólk
2-3 msk kakó, eftir smekk
3-400 gr flórsykur, eftir smekk
Skvetta sterkt kaffi, má sleppa
Öllu blandað saman þar til slétt og glansandi. Þykkt og bragð eftir smekk en fyrir þykkari glassúr má bæta við flórsykri. Meira kakó fyrir sterkara súkkulaðibragð og kaffi fyrir þá sem þykir örlítill keimur ómissandi í skúffuköku. Leyfa kökunni að kólna aðeins áður en glassúrnum er smurt yfir. Gott er að strá kókos yfir í lokin.
Njóta svo með glasi af ískaldri Hreppamjólk!